Kæru viðskiptavinir
Fyrir næstum 10 árum opnuðum við kreppugler.is vegna þess að okkur ofbauð verð á gleraugum hér á landi. Nú er svo komið að það hefur hægt verulega á sölu gleraugna hjá okkur, aðallega vegna þess að fólk er ekki lengur feimið við að panta gleraugu að utan og gerir það frekar en áður. Það er auðvitað frábært, því gleraugnaverslanir hér heima hafa ekki enn séð að sér og selja enn gleraugu á það sem manni þykja í flestum tilfellum himinhá verð.
En nú er svo komið að við ætlum að hætta að taka við pöntunum á kreppugler.is. Við erum ótrúlega stolt af kreppugler.is og þakklát fyrir alla viðskiptavinina okkar sem hafa treyst okkur fyrir sjóninni sinni.
Við þökkum fyrir viðskiptin í gegnum tíðina.
Ath að þær pantanir sem eru enn óafgreiddar verða afgreiddar og þið fáið gleraugun ykkar. Síðan verður uppi eitthvað áfram, fyrir þá sem vilja fletta upp gömlum pöntunum eða eitthvað slíkt.
Stilla gleraugu
Þegar þú ert búin(n) að fá nýju gleraugun þín, þá þarf oft að stilla þau. Stillingar er eitthvað sem allir geta gert, og algjör óþarfi að vera feiminn við að gera það sjálf(ur).Öll gleraugu eru byggð með það í huga að það þarf að vera hægt að stilla þau, því öll erum við með mismunandi andlit. Það sem er mikilvægast að hafa í huga þegar maður stillir gleraugun sín er að fara varlega og gera litlar breytingar í einu.
Áður en gleraugun eru stillt
Skoðaðu allar skrúfur og hertu varlega á ef einhverjar eru lausar. Stundum geta skrúfur losnað í flutningunum og þá er gott að festa þær áður en þær detta og týnast. Svo er hægt að nota örlítinn dropa af tonnataki á skrúfganginn til þess að vera viss um að skrúfur losni ekki aftur.Nefpúðar - gleraugu sitja ekki rétt á nefinu
Nefpúðana er best að stilla með því að halda á gleraugunum þannig að framhliðin á glerjunum liggur á fingrum beggja handa, og nota svo þumlana til að stilla púðana af. Mundu eftir að gera litlar breytingar í einu, því stórar breytingar oft veikja festingarnar og geta stytt líftíma gleraugnanna.Ef gleraugun þín eru ekki með nefpúða, þá þarftu að stilla armana til þess að fá þau til að sitja sem best.
Armar - gleraugu sitja skökk á andliti
Oft sitja gleraugun skökk á andlitinu á manni. Þá er nauðsynlegt að beygja armana upp eða niður.Ef gleraugun sitja hátt hægra megin, þá þarf að beygja hægri arm upp Það sem er mikilvægt að hafa í huga þegar maður beygir armana er að setja ekki álag á lamirnar sjálfar, því þær eru oftast viðkvæmasti partur gleraugnanna.
Armar - gleraugu renna til eða klemma hausinn of lítið eða mikið
Þegar gleraugun vilja renna fram á nefinu þá þarf að beygja beygjuna á arminum meira. Til þess að láta umgjörðina halda betur um hausinn, þá er beygjan beygð inn, að hausnum.Ef þú hefur einhverjar fleiri spurningar, endilega sendu okkur línu og við reynum að hjálpa þér eftir bestu getu!